
Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar
Framboð í stjórn Visku
Viska er stærsta stéttarfélag háskólamenntaðra sérfræðinga á Íslandi. Sem slíkt á félagið að standa vörð um réttindi og kjör síns félagsfólks ásamt því að veita því framúrskarandi þjónustu með sín mál. Ég býð mig fram í stjórn Visku því ég vil vinna að því að skapa sterkt félag sem berst fyrir okkar hagsmunum.


Framboð
Ég heiti Kristjana Mjöll og býð mig fram til áframhaldandi starfa í stjórn Visku. Ég gegni nú starfi gjaldkera stjórnar Visku og var áður formaður Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU).
Ég hef verið virk í verkalýðshreyfingunni síðan árið 2019, þegar ég tók fyrst sæti í stjórn. Síðustu tvö árin hef ég starfað að stofnun Visku, sem tók formlega til starfa 1. janúar 2024 eftir sameiningu þriggja stéttarfélaga. Í sameiningaferlinu og á þessu fyrsta starfsári félagsins var mitt helsta markmið að búa til öflugt stéttarfélag sem veitir framúrskarandi þjónustu og hefur slagkraft til að berjast fyrir réttindum félagsfólks.
Við megum svo sannarlega vera stolt af félaginu sem við sköpuðum saman. Viska er í dag eitt af stærstu stéttarfélögum landsins og við höfum byggt upp skrifstofu félagsins svo hún sé í stakk búin til að takast á við áskoranir næstu ára.
Á þessum tveimur árum sem ég hef unnið að sameiningu og stofnun Visku hef ég ávallt haft það að leiðarljósi að félagið vinni að því að styrkja stöðu háskólamenntaðra sérfræðinga sem raðast lágt í launatöflum hins opinbera þar sem störf þeirra eru ekki metin að verðleikum. Þetta eru sérfræðingar sem starfa víðsvegar í samfélaginu, en þó sérstaklega í menningar- og menntastofnunum og í heilbrigðisstofnunum.
Það er staðreynd að þó einstaklingur hafi aflað sér háskólamenntunar, þá birtist ávöxtur þeirrar menntunar ekki alltaf í launaumslaginu. Margir sérfræðingar í okkar röðum raðast lágt í launatöflum hins opinbera og eygja oft fá tækifæri til að breyta sinni stöðu. Laun þeirra raðast eftir starfsmatskerfum og stofnanasamningum þar sem virði starfa þeirra er skekkt og sú sérfræðikunnátta sem þau leggja til í starfi sínu er ekki metin að verðleikum.
Viska þarf að beita sér fyrir því að bæta umhverfi þeirra og vekja athygli á mikilvægi starfa þeirra úti í samfélaginu, ekki aðeins í samtali við launagreiðendur heldur einnig með öflugri hagsmunagæslu og virkri þátttöku í samfélagsumræðunni.
Félagsfólk Visku samþykkti kjarasamninga árið 2024 sem munu gilda í fjögur ár eða til ársins 2028. Þetta er tími sem stjórn Visku þarf að nýta vel. Tryggja þarf eftirfylgni með bókunum í þeim samningum og halda samtalinu virku við launagreiðendur. Jafnframt þarf að eiga virkt samtal um starfsmatskerfin og stöðu okkar fólks þar inni og endurnýjun stofnanasamninga.
Viska hefur hafið þessa vegferð en betur má ef duga skal. Hljóti ég kjör í stjórn Visku verður eitt af mínum meginmarkmiðum að styðja við þá vinnu og ýta undir að launasetning félagsfólks Visku sé byggð á málefnalegum grunni.


-
Gjaldkeri stjórnar Visku stéttarfélags, formaður kjaradeildar bókasafns- og upplýsingafræðinga.2023-
2025 -
Stjórnarmaður í framboðsnefnd BHM
2023-
2025 -
Stjórnarmaður í stjórn SFO, samtaka fólks með offitu og aðstandenda þeirra2023-
2025 -
Formaður Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU)2020-
2023 -
Stjórnarmaður í Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga2019-
2020 -
Vef- og samfélagsmiðlaumsjón fyrir þungarokkshátíðina Eistnaflug2018-
2022 -
Formaður Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræða2016-
2018 -
Stjórnarmaður í Upplýsingu, félags bókasafns- og upplýsingarfæða2015-
2016
Félagsstörf


Um mig
Ég starfa sem fagstjóri skylduskila og gjafa á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og hef gert það síðustu átta ár. Ég er með BA gráðu í bókasafns- og upplýsingafræði og MA gráðu í upplýsingafræði þar sem lokaverkefni mitt snerist um rannsókn stöðu skylduskila á Íslandi. Ég bý í Seljahverfi í Reykjavík ásamt eiginmanni mínum og þrem af fjórum dætrum, en þær eru á aldrinum 10 til 24 ára.
Ég hef alla tíð haft þá þörf að breyta og bæta hluti þegar ég sé að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Ég hef því lengi verið virk í félagsstarfi til að leggja mitt af mörkum. Ég var til að mynda formaður Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræða um tíma ,og var einnig formaður Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga þar til það sameinaðist í Visku. Ég sit í stjórn SFO, samtaka fólks með offitu og aðstandenda þeirra, og er ein af stofnmeðlimum þeirra samtaka. Það eru því ýmisleg mál sem ég brenn fyrir, en kaup og kjör þeirra sem starfa á sviði menningar og mennta eru mér efst í huga.
Ég er einnig bókaormur mikill og því til sönnunar má finna stafræna lestrardagbók mína á Instagram. Sú lestrardagbók hefur orðið til þess að ég hóf fyrir nokkrum árum að skrifa pistla fyrir Lestrarklefann um bækur og kynnst mörgum öðrum sem lifa og hrærast í heimi bókmennta á Íslandi. Það hefur einnig verið hægt að sjá mig á vappi á þungarokkshátíðinni Eistnaflugi en þar starfaði ég í sjálfboðaliðastarfi og gerði slíkt hið sama árið 2024 á fyrsta ári Sátunnar, þungarokkshátíðar í Stykkishólmi. Áhugamálin eru því í hnotskurn bókmenntir og þungarokk.

-
Fagstjóri skylduskila og gjafa á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni2016-
-
Stundakennsla í upplýsingafræði við Háskóla Íslands
2018-
2022 -
Forstöðumaður bókasafns Dagsbrúnar og vefstjóri ReykjavíkurAkademíunnar2015-
2016 -
Upplýsingafræðingur á þjónustusviði Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns2011-
2014 -
Ýmis störf á sviði vefhönnunar, verslunar og þjónustu1997-
2011
Störf

Hafa samband

janamjh (at) gmail.com